:: föstudagur, september 24, 2004 ::
.hjarta, spaði....
Nokkuð mögnuð vika að klárast og stefnir í ljúfa helgi. Menn byrja að sprikla í boltanum aftur á morgun og kíkja jafnvel í krús ef nenna er fyrir hendi og svo fer pápi gamli að sleppa af hospitalet á sunnudag ellegar mánudag. Já, kallinn búinn að liggja á spítala síðan á þriðjudaxkveld sökum slæmsku í hjartaling. 55 ára gamall maðurinn bankaði upp á hjá mínum og kvartaði undan smá slæmsku fyrir hjarta og þar sem Husby karlleggurinn er ei vanur að kvarta fyrr en að í fyrsta lagi er á grafarbakkann er komið þá dreif minns kallinn á slysó þar sem honum var skellt á bekk með alls kyns slöngur og sprautur hið snarasta áður en brunað var með hann á hjartadeildina við Hringbraut þar sem framkvædd bráðaþræðing á kransæð við pumpukvikindið! Gaurinn var þá víst barasta heppinn að steindrepast ekki og liggur nú á 14G með forláta hjartalínurit, lyf og imbakassa sér til skemmtunar auk þess sem fjölskyldan lítur við af og til og syngur og dansar ala Sound of Music.
Þetta var mögnuð atburðarrás sem kom öllum í opna skjöldu en þökk sé frábæru starfsfólki fjársvelts heilbrigðisgeira virðist allt ætla að fara eins og best verður á kosið. Ekki bara var pumpukvikindinu og eiganda þess bjargað fyrir horn heldur var einnig hugað vel að aðstandendum og öll fræðsla og aðstoð til stakrar prýði. Þökk fyrir, kæra fólk... hæ-fæv!