Eru Íslendingar lokaðir eða eru útlendingar alltaf drukknir? Maður spyr sig því sem lokaður Íslendingur verð ég ofsalega kammó og finnst gaman að spjalla er ég er kominn í ölkrús en er hundfúll andskoti sem varla yrðir á ókunnuga alla jafna. En útlendingar aftur á móti eru oftar en ekki kammó við alla og það kjaftar á þeim hver tuska sama þó maður sé að hitta þá í fyrsta skipti. Og hversu yfirborðskennt sem það kann að virðast og jafnvel óþægilegt í fyrstu þá venst þetta furðu vel og hið ofurhrezza "Hi!" er maður gengur inn í þjónustufyrirtæki í enskumælandi landi umbreytist úr því að manni hálfbregði og velti fyrir sér hvort maður eigi eitthvað að þekkja viðkomandi yfir í að maður hæjar bara á móti og ekki er laust við að gömul bros taki sig upp aftur!
En hvar liggur rót vandans (ef vanda skyldi kalla) hjá oss Íslendingum? Hví erum við svo lokuð? Mín kenning er sú að það að vera dúðaður í bak og fyrir sem barn sökum veðurfars á stormskerinu orsaki það að við venjumst því bara að vera inni í okkar "skel" enda ekki nokkur leið að sýna neina gleði, ástaratlot eða jafnvel bara að tjá sig mikið við náungann svo mikið klæddur... sjáið bara Kenny!
Þ.a.l. vil ég tala enn einu sinni fyrir því að við Íslendingar seljum Bandaríkjum norður-Ameríku ellegar Evrópusambandinu skerið sem t.d. fanganýlendu á nokkrar milljónir á mann og flytjumst svo öll sem eitt búferlum til svæðis þar sem við getum gengið um léttklædd (og opin!) allan ársins hring og lifað fínu lífi á monningunum okkar. Hver er með?!