Það er óhætt að segja að mér hafi verið illa brugðið við fréttirnar frá London við upphaf vinnudags. Hörmungar heimsins eru yfirleitt svo fjarri manni hér heima á skeri. En þetta er að gerast í London. Borgin sem lengi vel var sem mitt annað heimili og ég hef heimsótt oftar en ég hef tölu á. Á stöðum sem maður hefur átt leið um í óteljandi skipti. Á meðal fólks sem maður hefur jafnvel tjattað við á pöbbnum um boltann. Ég get með engu móti skilið svona villimennsku. Tilgangurinn var greinilega að myrða sem flesta því þetta gerist á háannatíma og allir sem hafa heimsótt London þekkja hversu pakkaðir lestarvagnarnir geta verið. Það er ekki hægt að réttlæta dráp sama í hvers nafni eða í hvaða tilgangi það er. Ofbeldi elur af sér ofbeldi en ég tel að Bretar muni ekki láta stjórnast af hatri og hefndarhug og grípa til vopna og frelsisskerðinga að illa athuguðu máli, ólíkt annarri ónefndri enskumælandi þjóð.
En það er ekki hægt annað en að dást að viðbrögðum London-búa. Skjót og fumlaus viðbrögð, æðruleysi og ákveðni. Borgin var lömuð í dag en íbúar hennar stóðu saman og sýndu fádæma styrk.
Þetta var síður en svo auðveldur vinnudagur... límdur við BBC og netið við hvert tækifæri. Og bæ ðe vei fjölmiðlar Íslands, árás á Ísland er harla ólíkleg svo það er alveg óhætt að hætta spyrja þeirrar spurningar og fara að snúa sér að staðreyndum eða a.m.k. pull yer heads out of yer arses!