:: þriðjudagur, janúar 10, 2006 ::
.köld eru krónuráð.
Það hlaut að koma að því. Maður svipti sig lífi eftir að hafa verið nafngreindur og mynd birt af honum á forsíðu snepilsins DV. Burtséð frá því hvort maðurinn var sekur eður ei um það sem hann var sakaður um þá hlýtur hver maður að geta sett sig í spor þeirra sem dæmdir eru svona af blaðinu. Ímyndaðu þér, lesandi góður, að einn góðan veðurdag vaknar þú við það að mynd birtist af þér á forsíðu DV að ósekju þar sem þú ert nefndur glæpamaður eða þaðan af verra. Þá er það undir þér komið að sanna sakleysi þitt í stað dómstóla að sanna sekt þína, og þó þér tækist það þá verðurðu samt alltaf úthrópaður glæpon. Og þó DV myndi viðurkenna mistök þá kæmi leiðrétting þess efnis einungis í lítilli klausu inni í blaðinu. Hefði þetta áhrif á lífsgæði þín og þinna nánustu? Héldirðu öllum vinum og kunningjum? Héldirðu starfi þínu? Fengirðu starfið sem þig dreymdi um? Gætirðu gengið um götur óáreittur?
Það er vonandi, en ólíklegt, að ritstjórn ellegar eigendur DV sjái að sér og láti dómstólum eftir að dæma misyndismenn þessa lands. Það má svo sannarlega deila um ágæti einstakra dóma eða stefnu dómstóla en staðreyndin er einfaldega sú að við búum við kerfi þar sem menn eiga teljast saklausir uns sekt er sönnuð og þar til slíkt er gert þá er nafn- og myndbirting sem þessi óafsakanleg og hefur alltaf verið. Það er vonandi að innanbúðarmenn DV geti sofið vært með bankabókina í annarri og eiturpennann í hinni.
Gagnrýni sem þessi er engan hátt sett fram sem árás á meint fórnarlömb málanna eða vörn fyrir meinta glæpi heldur einungis bláköld skynsemi. Það hlýtur að teljast ólíðandi að taka menn svona af lífi án þess að sekt sé sönnuð... hvað kemur í veg fyrir að slíkt geti komið fyrir einhvern nákominn þér?