Ég sakna þeirra tíma er heiti kvikmynda og sjónvarpsþátta voru þýdd úr engilsaxneskunni yfir á hið ástkæra ylhýra, hvurslax metnaðarleysi er það að nenna því ekki lengur?! Meira að segja leikhúsin nenna ekki einu sinni alltaf að snara titlum yfir. Og þetta er svo slæmt að ensk heiti t.d. spænskra hreyfimynda eru frekar notuð en upprunalegur titill ellegar íslensk þýðing og jafnvel íslenskir þættir eru farnir að heita erlendum nöfnum. Fussumsvei!
Hver man ekki eftir klassískum heitum sem "Á hverfanda hveli", "Stjörnustríð", "Aftur til framtíðar", "Steini og Olli", "Köngurlóamaðurinn", "Tónaflóð", "Bleiki pardusinn", "Beint á ská", "Beðmál í borginni", "Staupasteinn", "Handlaginn heimilisfaðir" og mörg fleiri sem festu sig í sessi til jafns við erlendu heitin. . Botninum var þó náð er önnur hver mynd hét "Hættuleg kynni", "Á tæpasta vaði", "Á ystu nöf" eða einhver samkrulla af áðurnefndum nöfnum.
Mun ég því taka það upp hjá sjálfum mér hér eftir að nota íslenskuð heiti sem ég dreg úr rassgatinu á mér fyrst enginn annar er að standa sig. Þannig verður "Brokeback Mountain" t.d. kölluð "Svínbeygjuhlíð", "Walk the line" verður "Línudans", "My name is Earl" "Erlingur heiti ég", "Worst Case Scenario" "Í versta falli", "Malcolm in the middle" "Magnús í miðið", "Punk'd" "Tekinn!", "Queer Eye For The Straight Guy" "Glöggt er hýrs augað", "Nip/Tuck" "Stagað og bætt".....
:: rassgat 15:08 [+] :
::
...