Hvað er það við íslensku þjóðarsálina sem fordæmir allt sem fetar ótroðnar slóðir og markvisst drepur niður öll frávik og frumlegheit?!
Tökum mótmæli sem dæmi, menn eru gjarnan litnir hornauga og á þá híað þar til fæstum dettur í hug að standa í þessu lengur. Og mótmæli virðast líka eldast af fólki, merkilegt nokk, því það er hending orðið ef þetta er ekki drifið áfram af ungu fólki sem enn býr yfir hugsjón og ástríðu til að fylgja henni eftir... mikið hlýtur maður að verða leiðinlegur ef manns helstu áhyggjur er eldri verður eru það hversu lengi maður þurfi að sitja í jepplingnum við bílalúguna á McDonalds til að ná í fjölskyldutilboðið.
Allir eiga að passa í einhverja skúffuna, helst þessa stóru þar sem allir vinna myrkranna á milli, eru trúaðir á jólum og í jarðarförum, kjósa það sem pabbi kaus og eiga flottari bíl en fúllámóti. Stjórnmálamenn eru allflestir steyptir í sama mótið í gegnum ungliðastarfið og verða að halda með sínu liði sama á hverju dynur svo ekki er furða að breytingar séu fáheyrðar og þaðan af síður að menn hampi sínum eigin skoðunum. Skoðanir skulu slípast til af liðinu sem maður heldur með áður en þær eru lagðar fram og einnig skulu þær taka mið af almenningsálitinu sískemmtilega sem jú fylgir sínum beina og breiða farvegi enda er það auðveldara en hitt og svo sem enginn til að bjóða upp á aðra valkosti þar sem ekki telst vænlegt til árangurs að breyta út af vananum. Vaninn sem án efa hefur lagt margan ágætan manninn að velli því það er oft á tíðum afskaplega freistandi að gefast bara upp og láta sig fljóta með straumnum.
Ég hef skoðanir sem ég viðra alls ekki nógu oft. Ég hef hugsjónir sem ég fylgi alls ekki nógu oft eftir. Ég telst skrítinn... en verð vonandi skrítnari.