:: sunnudagur, september 02, 2007 ::
.áhrifagjarn.
Gerir maður sér nokkurn tíma fullkomlega grein fyrir áhrifavöldum sínum í lífinu? Sem barn eru helstu átrúnaðargoðin jafnan fólk á við leikara, tónlistar- og íþróttafólk án þess að maður geri sér nokkra grein fyrir því hverjir það eru sem raunverulega móta mann. Svo ég taki nú dæmi af sjálfum mér, enda tel ég mig vera þá manneskju sem ég þekki hvað best, þá hef ég stóran hluta ævi minnar verið óttalega grænn og talið mig vera sterkan og óháðan sem klett. En jafnvel klettar eru háðir umhverfi sínu. Kletturinn mótast af umhverfi sínu og jafnvel brotnar niður við slæmar aðstæður.
Eins og áður sagði þá hundleiðist mér akkúrat núna og var ég því að þvælast vefsíðna á milli og var fyrir rest dottinn inn á síður fólks sem ég hef ekki talað við lengi og lítið sem ekkert fylgt eftir í netheimum. Fór inn á síðu stelpu sem mér þykir alltaf skemmtilegt að lesa og þaðan inn á síðu vinkonu hennar sem ég bjó með til skamms tíma á grænni árunum. Í minningunni var þetta fyrir hundrað árum enda ég allt annar og síðri maður þá en það sem stendur upp úr er fólkið sem ég kynntist, s.s. fjölskylda hennar, því ég gæti ekki fyrir mitt litla líf sagt til hversu lengi sambandið varði né heldur á hvaða tímabili það var. Enginn sérstakur tilgangur með færslu þessari nema að einhverra hluta vegna læddist þessi pæling inn í kollinn á mér, hvaða áhrif hefur annað fólk haft á mig í gegnum tíðina og jafnvel hvaða áhrif hef ég haft á þau.
Þessa dagana er Paulo Coelho áhrifavaldur auk alls þessa góða fólks sem ég hef kynnst í gegnum tíðina. Takk fyrir mig.
Þema kvöldsins er tilgangslausar bloggfærslur og veitingastaður Romeo hér niðri.