:: þriðjudagur, september 04, 2007 ::
.margt er skrítið í kýrhausnum.
Athyglisvert að sjá muninn á helstu fréttum skersins og Baunanna þessa daga.
Heima er símaauglýsing nokkur með Ésú og Júdas í aðalhlutverkum, vel gerð og nokkuð skemmtileg auglýsing, að fara illa í helstu forkólfa helgislepjunnar auk þess sem umferð þótti ganga heldur hægt í morgun. Nokkuð sem gerist á hverju ári, þökk sé lífsgæðakapphlaupinu og hálflömuðu almenningssamgangnakerfi (sem er reyndar svo vegna þess að fólk notar ekki strætó, þetta sama fólk segist svo ekki gera slíkt vegna slæms kerfis... catch 22).
Hér á flatlendinu þar sem haustið er farið að minna á sig hefur helsta fréttin verið handtaka átta manna af útlensku bergi brotnu í morgun. Eru þeir bendlaðir við hryðjuverkastarfsemi en nokkuð magn sprengiefna fannst á heimilum þeirra. Einnig hafa hressu krakkarnir úr Ungdómshúsinu sem var rifið fyrir sex mánuðum sælla minninga verið að minna aðeins á sig hér í næstu götu. Kveiktu sér nokkra varðelda og fríkkuðu aðeins upp á McDonalds og fleiri kapitalistasvín sem endaði með því að 63 stykki fengu gistingu í boði danska ríkisins. Gert er ráð fyrir frekari óeirðum út vikuna og það er engin hætta á öðru en að ég verði hér í hringiðunni.
Veit ekki með ykkur en ég myndi frekar vilja vera í smá tíma í umferðinni en að vera sprengdur í loft upp.