:: laugardagur, september 08, 2007 ::
.sound of music.
Fór á tónleika í kvöld í Christianshavn þar sem léku fyrir dansi Seabear og Benni Hemm Hemm ásamt hinni rómuðu DjéJoð Musika.
Það verður vart annað sagt um sett Seabear en að þar hafi farið afslöppuð og skemmtileg dagskrá sem náði þeim fáu sem lögðu við hlustir þó reyndar hefði stöku hljómsveitarmeðlimur mátt dýfa stóru tánni aðeins varlegar í djöfladjúsinn. Og að ósekju hefði myndatökumaðurinn Árni alveg mátt láta tambúrínuna vera enda með afbrigðum taktlaus maður þar á ferð. En öngvu að síður gott partý og fín músík hjá Sæbirni.
Svo steig á stokk hinn rómaði Benni Hemm Hemm, eða öllu heldur hin sundurleita en jafnframt þétta sveit Benna Hemm Hemm með Benna fremstan í flokki. Það verður ekki annað sagt en að það sé miður að ég hafi ekki gert mér far um að kynna mér tónlist þeirra fyrr því þarna fór popp af bestu gerð og langt síðan að jafn gaman hefur verið á jafn íslenskum tónleikum. Það var vart að bandið slægi feilnótu enda greinilega þarna á ferð hópur sem hefur slípast vel saman á undanfarinni tónleikaferð, m.a. um Bandaríki Norður-Ameríku, og hafa gaman af því sem þau eru að gera... ólíkt t.d. löndum þeirra í Steed Lord sem heiðruðu Danann með heimsókn sinni fyrir nokkrum vikum og höfðu lítið annað upp á að bjóða en fallegar umbúðir án teljandi innihalds. En hvað um það, Benni Hemm Hemm átti salinn í kvöld og ef þessi náttúrutalent sem Benni augljóslega er og hans fína band halda áfram á sömu braut þá hafa þau litlu að kvíða varðandi framtíðina.