Nóg hefur verið að gerast í íslensku þjóðfélagi síðustu daga. Fyrir utan að yndið ykkar hann Dabbipabbi flutti á Fálkagötuna þá hefur það verið helst í fréttum að nýr meirihluti hefur enn og aftur verið myndaður hér í borg óttans, borg hvers miðbær er í útrýmingarhættu og að íslenska landsliðið í handbolta hefur verið í eldlínunni á Evrópumeistaramótinu í Noregi.
Þykir mér sem stjórnmál á Íslandi hafi beðið mikla hnekki í öllu þessum klækjum og prettum sem hafa verið viðhöfð síðustu misserin í Reykjavíkinni og sér í lagi þykir mér Sjálfstæðisflokkurinn hafa farið illa út úr þessu valdabrölti. Líkurnar á að Vilhjálmur verði borgarstjóri á ný tel ég litlar sem engar því fyrir það fyrsta þá er meirihlutinn afar veikur eins og alltaf er bent á en hitt tel ég þó líklegra að Sjálfstæðismenn sjálfir uni manninum ekki forystu mikið lengur ætli þeir ekki að bíða skipbrot í næstu borgarstjórnarkosningum. Kosningum sem ég tel fullvíst að bæði Framsókn og Frjálslyndir/Óháðir muni bíða afhroð í enda munu gjörðir þeirra dæma sig sjálfar.
Þó þeim sem fara með völd í borginni verði seint bjargað þá er hefur
hópur góðs fólks tekið sig til og reynt að sporna við þeirri þróun að vor yndislegu auðmenn ryðjist með offorsi yfir miðbæinn okkar og planti risavöxnum kössum um allt. Miðbær sem vissulega hefur oft mátt muna fífil sinn fegurri en það er þó enginn ástæða til að eyða honum. En rétt eins og í pólitíkinni þá hafa auðmennirnir oft á tíðum beitt klækjum og prettum til að ná sínu fram og hafa einungis peningasöfnun að leiðarljósi. Ekki skilja það sem svo að ég sé á móti framþróun eða breytingum en hví ekki að staldra við og mynda einhverja heildræna stefnu í miðborgarmálum áður en hús sem hafa söguleg og jafnvel tilfinningaleg gildi fyrir fjölmarga eru horfin... hugsum okkur tvisvar um áður en hörmungar sem gamla Morgunblaðshúsið, kassinn á milli Hótel Borgar og Apóteksins eða háhýsin í Skuggahverfinu verða það eina sem eftir eru í miðborginni, nóg er nú landsvæðið til að byggja nýtt án þess að fórna hinu gamla. Hlutir geta virkað alveg prýðilega þó þeir séu gamlir og líti ekki út eins og steingeldur steypuhnullungur í Innlit/útlit.
Og skemmst er frá handboltanum að segja að
Ísland hefur hreint út sagt bara skitið langt upp á bak sér! Sóknin sem var sú besta á síðasta HM hefur verið í molum allt mótið og virðist sem að leikmenn hafi bara verið yfirspenntir er mótið hófst og brotnað svo niður þegar á móti blés án þess að þeir hafi náð að rífa sig upp á ný. Erfitt er að benda á einhvern einn sökudólg og væri það frekar ósanngjarnt þegar allt liðið bregst svona en hallast ég þó helst að því að þjálfaranum hafi hreinlega ekki gefist tími til að undirbúa liðið sem skyldi og spilar þá máski eitthvað þar inn í að hann, upptekinn þjálfari félagsliðs í heimsklassa, er án aðstoðarþjálfara þetta mótið.
Þótt vissulega hafi maður sterkar skoðanir á öllum þessum málum þá hefur mér þótt umfjöllunin og umræðan í þjóðfélaginu mun skemmtilegri. Fólk missir sig alveg í móðursýkinni og múgæsingnum og það skemmtir mér alveg gríðarlega. Nokkuð sem maður saknaði frá Danmerkur-dvölinni, að vera í hringiðunni á Íslandi og jafnvel taka þátt í látunum. Svo eru auðvitað hinir sem kæra sig kollótta og telja jafnvel andlát sykurpúða í Hollywood merkasta atburðinn það sem af er ári. Já við erum jafn skemmtileg og við erum mörg... eða var það jafn leiðinleg og við erum fá?!