Þar sem ég nenni hvorki að sinna tilkynningaskyldunni né gerast óþarflega væminn yfir hátíðirnar þá hef ég ákveðið að segja ykkur frá nýjustu ástinni í lífi mínu. Ég kynntist henni eftir að ég kom heim á stormskerið og ég tók upp á því að fara að reyna að vakna á skynsamlegum tíma til að búa mig undir níutilfimmlífernið á ný. Var þá alveg tilvalið að fylgjast með alvitra kyntröllinu honum doktor Phil með öðru auganu, meirihlutanum af eyrunum og vinstri höndinni yfir morgunblöðunum. En þar sem ég er annað hvort torlæs ellegar les bara einfaldlega um of af misspennandi efni blaðanna þá var yfirleitt komið töluvert inn í næsta dagskrárlið er ég leit upp frá blöðunum. Og kem ég þá að ástinni í lífi mínu...
Ég elssjjjkaaahhh Vörutorgið á Skjáeinsömlum!
...þetta er eitthvað það skemmtilegasta sjónvarpsefni sem völ er á, Næturvaktin hvað segi ég nú bara! Stórkostlega slísí sölumennirnir, nýútskrifaðir frá Dale Carnegie að nýta Verzlunarskólaprófið sitt til hins ítrasta eftir að bílasalan fór á hausinn, eru svo æðislega slæmir að þeir slá út þreytta frasa Péturs Jóhanns með einari án þess að svo mikið sem svitna á efri vörinni! Þetta eru menn að mínu skapi enda ég þekktur fyrir að alhæfa um allan andskotann án þess að hafa neitt sérstakt fyrir mér í málunum. Og það er greinilegt að ef maður er bara nógu svæsinn í alhæfingum sínum og endurtekur þær í sífellu eins fígúra úr Gaukshreiðrinu þá trúir fólk þeim á endanum... sjáið bara Framsóknarflokkinn og hæstvirtan forseta vor til dæmis sem básúna bara þær skoðanir sem eru móðins í vindátt daxins og fólk oftar en ekki kokgleypir án teljandi gagnrýni, en það er allt önnur og minna spennandi saga.
En semsagt frasarnir svínvirka, ég meina hver vill ekki vera í inniskóm sem "muna" eftir manni (það vill jú öngvinn deyja gleymdur maður) á meðan maður etur svokallað "candy floss" með megrunarpillusáldri úr kandífloss-vélinni sem manni dreymdi alltaf um á sama tíma og maður kemst í stórkostlegt form í þessum undratækjum sem æfa ALLA vöðva líkamans í einu?! Í einu nota bene! Svo á meðan maður notar æfingakerfið magnaða sem inniheldur tvo hólka með sandi, vatnsbrúsa og dévaffdé-disk og kostar ekki nema 17.990 æslandik króns (ekki fara að væla yfir verðinu, þetta er eflaust bara úrvalsvísitölunni eða fasteignamarkaðnum í Bandaríkjum norður-Ameríku að kenna) þá getur maður skellt hinum tækjunum inn í skáp eða undir rúm við hlið búslóðarinnar sem kemst svo gott sem öll fyrir í geimpokunum byltingarkenndu og lofttæmdu... eða var það loftkenndu og byltingartæmdu? Man ekki og skiptir ekki, stórkostlegt á hvorn veginn sem er.
Ég elska þig
Vörutorg, eða VT eins og við sem þekkjum þig köllum þig.
*Öppdeit* Hef fengið ófáar meldingar varðandi að fólk nenni ekki að lesa svona langan texta. Til að koma til móts við þá með athyglisbrestinn sem og hina torlæsu þá má nálgast færslu þessa lesna upp á afar kynæsandi hátt á hljóðskrá
hér.