Hef komið mér upp þeim ósið síðustu árin að sofna alltaf út frá sjónvarpinu þegar ég sef einn. Gengur það allajafna hratt og örugglega að sofna yfir einhverjum leiðindunum á Skjáeinsömlum, stöð sem svo skemmtilega vill til að stefnir hraðbyri í að verða álíka mikill viðbjóður og Stöð tvö.
En hvað um það, í þetta skiptið setti ég fyrir einhverja rælni yfir á TottPíví sem heitir víst núna Skífan Té Vaff og nú er ég bara fastur yfir stöðinni enda virðast þeir hafa alveg magnað lag á að spila eingöngu horbjóð þarna. Tónlist sem er svo mikið ógeð að hún verður hreinlega heillandi í ógeðslegheitum sínum. Hallast ég helst að því að ég hafi dottið inn í einhvern raunveruleikaþátt sem gengur út á að finna versta tónlistarmann sögunnar. Og get ég þá sagt ykkur þau stórkostlegu tíðindi að maðurinn er líklega fundinn! Þrátt fyrir gríðarlega keppni frá ammmrískum poppgeldingum svo sem Bon Jovi, Nickelback, R. Kelly og hvað þetta allt heitir sem kallar sig ýmist rokkara ellegar errogbé-tónlistarmenn, þótt hvorugt séu, þá gladdi það mitt litla hjarta að finna allan vafa hverfa úr hjarta mínu er ég sá kauða er kallast
Robin Thicke. Kann engin frekari deili á þessum yfirgeldingi en þetta mun vera án nokkurs efa sá alversti tónlistarmaður sem ég hef nokkurn tíma á ævi minni heyrt í! Mæli eindregið með því að fólk tékki á þessum gaur því jú það er mun auðveldara að læra að meta fegurð þegar þú hefur ljótleikann til viðmiðunar.
Góða nótt.