Mér hefur alltaf þótt það fremur kyndugt að þurfa að segja mig úr hinu og þessu sem ég skráði mig ekki í til að byrja með. Og hef ég að sama skapi þótt kyndugur fýr að hafa skoðanir á málunum og velja mér leið sem hentar mér í stað þess að gera bara eins og hinir. Sérviska? Máski. Merki um lífsmark, án efa.
Þjóðkirkjunni hef ég sagt mig úr af augljósum ástæðum en skil þó upp að vissu marki hví ég var skráður í það helgislepjubákn, það var ákvörðun foreldra minna. Eða öllu heldur þá flutu þau með meginstraumnum eins og flestir. Ég kýs, að vandlega íhuguðu máli, að standa utan við öll trúfélög og óska þess að aðrir beri einnig gæfu til þess að taka ákvarðanir í stað þess að vera skoðanalaus dauðyfli. (Nú er bara að bíða þess að skattpeningar mínir hætti líka að renna til trúfélaga... ó Útópía hvar eruð þér?!)
Heilbrigðisgagnagrunninum margfræga þurfti ég að segja mig úr án þess að hafa nokkurn tíma gefið leyfi til þess að upplýsingar mínar yrðu brúkaðar á nokkurn máta annan en í það sem liggur í augum uppi. En miðað við fárviðrið sem varð í kringum gagnagrunninn á sínum tíma þá er það býsna fyndið að eftir því sem ég kemst næst þá komst hann aldrei í gagnið. En það breytir því þó ekki að meirihluti þjóðarinnar hefur með þögn sinni gefið leyfi fyrir því að heilsufarsupplýsingar þess verði notaðar. Í göfugum tilgangi og til framdráttar læknavísindunum segja sumir, í annarlegum tilgangi og undir þumli "stóra bróður" segja aðrir. Hvort heldur sem er þá kæri ég mig lítt um að viðkvæmar upplýsingar um mig séu til en þar sem slíkt er óhjákvæmilegt þá a.m.k. að þær fari þá ekki annað en þangað sem eðlilegt getur talist.
Hjá þjóðskránni frábað ég mér það að vera hluti af úrtökum skránnar sem svo seldar eru þriðja aðila. Og þó hafði ég aldrei beðið um að vera með í neinu slíku, einungis gerst svo djarfur að búa á Íslandi. Ætli almenningur vita almennt af þessari aukabúgrein Þjóðskránnar og hví það losnar seint við símasölumennina hressu?!
Í símaskránna þurfti ég að biðja um sérstaka merkingu sem myndi banna að upplýsingar mínar þar væru notaðar til símasölu, sem þó virkar ekki nema sölumennirnir séu heiðarlegir og/eða maður sé ekki hluti af úrtaki þjóðskrár til símasölufyrirtækjanna hvimleiðu eins og áður segir. Merkilegt nokk.
Síðast þegar ég ferðaðist með flugi þá þurfti ég að afþakka aukaþjónustu og þ.a.l. aukakostnað í stað þess að panta þjónustuna auknu sérstaklega. Svoleiðis vinnubrögð virðast reyndar algild á Netinu því miður.
Ég hef oft átt rökræðurnar um "núllpunktinn" góða. Af hverju fáum við ekki að hefja lífið, eða lifa því ef því er að skipta, án þess að vera skráð í eitt eða neitt nema þá máski samfélag manna og lýðræðið sem var ákveðið að notast við? Hvenær færðist "núllpunkturinn" þannig að með lífinu fáum við nú alls konar óumbeðinn aukabónus/vesen í stað þess einfaldlega að nálgast sjálf það sem við viljum eða vanhagar um? Megum við búast við því að með tímanum fylgi með fæðingarvottorðinu torfært smátt letur sem tíundar allt það er við höfum skuldbundið okkur í einungis með því að vera til?
Mér finnst umhverfi mitt og samferðarfólk oft skrýtið. Því finnst yfirleitt það sama um mig. Það virkar fínt. Góðar stundir.