Mér var litið á baksíðu Tuttuguogfjögurra stunda rétt í þessu og þar blasti við mér eitthvað sem ég persónulega myndi hreinlega telja til heimsku og fæ ekki skilið hvurnig ratar á prent.
Í fyrsta lagi grein einhverrar Þóru Þórarinsdóttur sem "vill sjónvarp allra landsmanna" undir yfirskriftinni "Sjónvarpið þarf sér-íþróttarás". Í henni tekur hún til við að rekja eitthvað sem kalla mætti rök fyrir þessari bón sinni að Sjónvarpið opni sér rás undir íþróttir af því að annars séu þeir ekki að þjóna öllum landsmönnum vegna þess að það eru svo margir sem hafa ímugust á íþróttum. Væl sem kunnuglegt er í kringum öll íþróttamót er sýnd eru á RÚV. Vandinn við "rök" þessi er sá að ég og fjölmargir gætum þá alveg eins tekið við að væla yfir því að Sjónvarpið sýni t.d. sápuóperur, kvikmyndir eða jafnvel táknmálsfréttir af því að það þjónar ekki mínum áhuga eða þörfum og þar af leiðandi ekki "öllum landsmönnum", og þar með ætti RÚV með það sama að opna sér rás fyrir kvikmyndir, þætti, fréttir eða hvaðeina sem þjónar ekki öllum landsmönnum! Það eina sem yrði þá eftir á aðalrás RÚV er efni það sem næst kemst því að fá 100% áhorf, Júgravísjón, handboltalandsleikir, Spaugstofan og Áramótaskaupið í öll mál og verði þá landsmönnum að góðu! Það verður aldrei öllum gert til geðs svo það eina sem ég vil segja við Þóru og hennar líka er sjöttðefökköpp og finndu þér eitthvað annað að gera yfir íþróttavertíðir en að glápa á imbakassann!
Því næst rak ég augun í greinling undir yfirskriftinni "Forkastanlegt og ótrúlegt" þar sem formaður félax eldri borgara í Reykjavík hneykslast á því að nýfangelsaður eiturlyfjainnflytjandi sé löggilt gamalmenni. Merkileg ekki-frétt vaðandi í aldursfordómum frá manneskju sem ætti jú að vita betur sem talsmaður krumpudýra í borg óttans. Hef aldrei skilið fólk sem heldur að hitt og þetta megi ekki lengur sé það komið á vissan aldur. Ég hef sem dæmi valdið ófáum vinum og vandamönnum gríðarlegum vonbrigðum með því að fullorðnast ekki í einum grænum um leið og ég varð þrítugur! Punktið þetta niður: Fíflagangur, hlátur og lífsgleði er eitthvað sem ber að brúka í æsku sinni og trappa svo niður þar til maður endar sem gleðisnauð afturganga í biðsal dauðans.